Guitar Islancio til Japan
Félagarnir Björn Thooddsen, Gunnar Þórðarson og Jón Rafnsson í Guitar Islancio eru á leið til Japan, þar sem tríóið mun halda þrenna tónleika í þessari viku.
Það er Aljjos Music útgefandi Guitar Islancio í Japan sem skipuleggur tónleikana í samvinnu við Japan Iceland Society. Óttar Felix Hauksson hjá Zonet útgáfunni verður í för með þeim, en Zonet útgáfan hefur samið við Alljos Music í Japan um leyfi á útgáfu þriggja hljómplatna með Guitar Islancio, kom fyrsta platan út nú á vordögum. Ferð þessi er farin til að styrkja útgáfu Guitar Islancio enn frekar í Japan og verður virtum tónlistarblaðamönnum ásamt fulltrúum útvarps- og sjónvarpsstöðva boðið á hljómleika Guitar Islancio og á fund listamanna og útgefenda. Það er vaxandi áhugi fyrir tónlist Guitar Islancio erlendis, hin skemmtilega sérstæða blanda íslenskrar þjóðlagahefðar og alþjóðlegs jazzívafs, leikin af hljóðfæraleikurum sem vissulega eru á heimsmælikvarða, mælist víðast hvar vel fyrir. Tónlist Guitar Islancio er þegar komin í spilun í útvarpi í þremur heimsálfum Ameríku, Evrópu og Asíu. Guitar Islancio eru verðugir fulltrúar íslensks tónlistarlífs á erlendum vettvangi og hefur framganga þeirra á erlendri grund opnað dyrnar fyrir öðrum íslenskum listamönnum á erlendum markaði, má þar nefna að íslenskir tónlistarmenn hafa átt fulltrúa á hverju hausti á hinni árlegu kínversku alþjóðlegu listahátíð í Shanghai, síðan Guitar Islancio riðu þar fyrstir á vaðið.